Hoppa yfir valmynd

Áhersluverkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins

Hringrásarhagkerfið

Helstu áherslur ráðuneytisins eru: 

  • Að hraða eins og kostur er innleiðingu hringrásarhagkerfis hér á landi.
  • Að taka upp sjálfbærari neysluhætti og draga úr myndun úrgangs. 
  • Að byggja upp innviði sem stuðla að endurvinnslu úrgangs og brennslu þess úrgangs sem ekki er mögulegt að endurvinna, í því augnamiði að draga hratt úr urðun úrgangs. 

 

Virkt hringrásarhagkerfi er ein lykilforsenda þess að árangur náist í loftslagsmálum og vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Markmiðið með hringrásarhagkerfi er að draga úr auðlindanotkun, auka líftíma auðlinda jarðar og koma í veg fyrir að efni og hlutir hverfi úr hagkerfinu sem úrgangur. Þannig má auka hagsæld og lífsgæði en um leið standa vörð um takmarkaðar auðlindir jarðar, stuðla að sjálfbærni og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. 

Í ráðuneytinu fór á árinu fram markviss vinna við undirbúning að gildistöku og framkvæmd lagabreytinga sem gerðar voru árið 2021 og snúa að hringrásarhagkerfi og úrgangsmálum, eða svokallaðra hringrásarlaga. Breytingarnar tóku að fullu gildi í upphafi árs 2023 og um er að ræða eina umfangsmestu og mikilvægustu breytingu á lagaumhverfi úrgangsmála sem orðið hefur í langan tíma. Undirbúningurinn fór meðal annars fram í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og fólst í sérstökum verkefnum til stuðnings sveitarfélögunum, auk þess sem ráðuneytið tók virkan þátt í og studdi við verkefni á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga. 

Íslendingar voru ein þeirra 175 þjóða sem samþykktu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að vinna að gerð alþjóðlegs, bindandi samnings gegn plastmengun og ljúka gerð hans fyrir lok árs 2025. Ísland er hluti af svokölluðu metnaðarbandalagi um 50 ríkja þegar kemur að samningaviðræðunum en með samningnum er ætlunin að taka á öllum lífsferli plasts. 

Plastmengun og strandhreinsun

Líkt og árið áður veitti ráðuneytið styrki úr sérstökum sjóði til eflingar hringrásarhagkerfinu. Alls bárust ráðuneytinu 95 umsóknir um styrki og var heildarupphæð umsókna 1.250 milljónir króna. Af þeim hlutu 22 verkefni styrk og nam heildarstyrkupphæð 230 milljónum króna. Þar af var 141 milljón kr. veitt vegna nýsköpunarverkefna og 89 milljónum kr. vegna annarra verkefna.

Fimm ára átak ráðuneytisins til allsherjarhreinsunar strandlengjunnar af plasti og öðrum úrgangi hélt áfram á árinu. Styrkjum var veitt til fimm frjálsra félagasamtaka til að annast strandhreinsanir um landið, alls 30 milljónum króna.

Starfshópar

Á árinu skipaði ráðherra starfshóp um endurmat á kerfi framlengdrar framleiðendaábyrgðar hér á landi. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum undir lok árs og setti fram tillögur til úrbóta í fjórtán liðum. Starfshópurinn lagði til aukið gegnsæi og aukna þátttöku framleiðenda og innflytjenda í uppbyggingu hringrásarhagkerfis með skilvirkari beitingu hagrænna hvata, auknum úrgangsforvörnum og fræðslu og aukinni þátttöku í nýsköpun, auk þess sem skoðaðar verði hugmyndir að kerfislegum breytingum á framkvæmd framlengdrar framleiðendaábyrgðar, sem hugsanlega gætu auðveldað kerfinu að mæta áskorunum framtíðar.

Hlutverk framleiðenda í hringrásarhagkerfi

Þá skipaði ráðherra á haustdögum starfshóp sem hefur það hlutverk að leggja til nýtt fyrirkomulag að eftirliti með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum. Einnig var skipaður starfshóp sem hefur það hlutverk að setja fram tillögur um hvernig megi flýta innleiðingu hringrásarhagkerfis og skilar hann niðurstöðum sínum um mitt ár 2023.

Loks skipaði ráðherra stýrihópinn Græna dregilinn, sem ætlað er að efla stuðning við aðila sem sýna áhuga á að ráðast í loftslagstengd græn nýfjárfestingarverkefni á Íslandi. Markmið Græna dregilsins er að framfylgja stefnumótun stjórnvalda og atvinnulífs t.a.m. á sviði útflutnings, erlendrar fjárfestingar, nýsköpunar, orkumála, loftslagsmála og sjálfbærni.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum