Hoppa yfir valmynd

Aðgerðaáætlun í netöryggi

Aðgerðaáætlun stjórnvalda í netöryggi var kynnt fyrir ríkisstjórn í október 2022 og á viðburði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis stuttu seinna. Aðgerðaáætlunin samanstendur af 65 fjölbreyttum og fullfjármögnuðum aðgerðum sem byggja annars vegar á markmiðum og áherslum Netöryggisstefnu Íslands, sem eiga það sameiginlegt að vera ætlað að efla netöryggi alls samfélagsins; atvinnulífs, almennings og stjórnvalda, og hins vegar á víðtæku samráði þvert á ráðuneyti og stofnanir. Út frá inntaki aðgerða eru þær flokkaðar í sex undirmarkmið sem tengjast meginmarkmiðum Netöryggisstefnunnar. 

Öllum ráðuneytum var boðið að taka þátt í mótun aðgerðaáætlunarinnar og framkvæmd sérstakra aðgerða sem tengjast málefnasviðum þeirra. Auk þess tóku Fjarskiptastofa, CERT-ÍS, Embætti ríkislögreglustjóra, Persónuvernd, Stafrænt Ísland, Fjölmiðlanefnd, Neytendastofa og Embætti landlæknis þátt í samráðinu ásamt viðkomandi ráðuneyti.  

Við kynningu aðgerðaáætlunar ítrekaði ráðherra að netöryggismál ná til alls samfélagsins og verða sífellt flóknari og víðtækari, t.d. með tilkomu gervigreindar. ,,Við viljum að Íslendingar búi við öryggi á Netinu sem byggir á öflugri öryggismenningu, traustum netvörnum og löggæslu, virku samstarfi innanlands og alþjóðlega og traustri löggjöf sem stuðlar jafnframt að nýsköpun og framþróun í þjónustu á Netinu.” 

Aðgerðaáætlunin byggir á sömu meginmarkmiðum og netöryggisstefna Íslands. Annars vegar að hér á landi sé afburðahæfni og nýting á netöryggistækni og hins vegar að hér sé öruggt netumhverfi. 

Aðgerðir sem stuðla að markmiði um afburðahæfni og nýtingu snúa m.a. að traustri öryggismenningu og netöryggisvitund, öflugri menntun, rannsóknum og þróun, þjónustu og nýsköpun. Þá leggja aðgerðir sérstaka áherslu á netöryggisvitund og vernd barna og er t.a.m. stefnt að því að þróað verði fjölbreytt námsefni um netöryggi á öllum skólastigum. Aðgerðir sem snúa að markmiði um öruggt netumhverfi á Íslandi snúa að miklu leyti að öflugri löggæslu, vörnum og þjóðaröryggi ásamt skilvirkum viðbrögðum við atvikum og traustu lagaumhverfi. T.a.m. fela aðgerðir í sér greiningu og endurmat á valdheimildum stjórnvalda vegna alvarlegra netárása og hvort ákvæði almannavarna þarfnist endurskoðunar með tilliti til þróunar í stafrænni tækni. Þá verður regluverk um starfsemi hýsingaraðila með staðfestu á Íslandi endurskoðað til að koma í veg fyrir brotastarfsemi í skjóli nafnleyndar. 

Yfirlit yfir allar aðgerðir í aðgerðaáætluninni er að finna í gagnvirku mælaborði á heimasíðu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Mælaborðið sýnir framgang aðgerðanna á myndrænan hátt. Þar er m.a. að finna hver fer með framkvæmd hverrar aðgerðar fyrir sig og hlutfall þeirra aðgerða sem eru í undirbúningi, í vinnslu og lokið, bæði í heild og út frá hverju ábyrgðarráðuneyti.  

 

Netöryggisstefna Íslands 2022-2037 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum